Á miðvikudagskvöldi mættu 25 kórfélagar unglingakórsins og 6 fararstjórar í Leifsstöð. Spenningurinn var mikill og strax í innritunarröðinni var byrjað að syngja.

Við fengum framúrskarandi þjónustu í innrituninni. Hópurinn var tékkaður inn alla leið og við fengum boarding passa sem gilti fyrir bæði flugin (Keflavík – Berlín og Berlín – Búdapest).

Þegar út í vél var komið þá hófst mikill hrókeringaleikur, þar sem skipt var um sæti fram og til baka. Vinir þurftu að sitja saman, einhverjir urðu að vera við glugga, aðrir við gang og svo framvegis. Að lokum voru þó allir sestir og engin teljanleg töf varð á flugtaki.

Þar sem um næturflug var að ræða, var krökkunum ráðlagt að reyna að sofna. Margir gátu dottað aðeins, en nokkrir gátu alls ekki sofnað sökum spennings.

Í Berlín biðum við svo í tvo tíma eftir næsta flugi. Þó að þetta flug væri styttra þá náðu nokkrir að hvíla sig líka þar.

Lent var í Búdapest kl. 10 að staðartíma, allur dagurinn framundan og fólk orðið ponsulítið ferðalúið.

Farangrinum var hent inn á hótel og svo var farið beint í mollið! Fyrst að fá sér að borða,  svo að skipta evrum yfir í forintur, og þá hofst innrásin. Hvert? Nú í H&M!

Ungverjarnir eru greinilega ekki vanir að fá Íslendinga til að versla. Engar varúðarráðstafanir voru gerðar vegna innrásarinnar – allavega var ekki verið að kalla fólk út í aukavinnu til að sinna þessum verslunarglöðu brjálæðingum!

Tíminn leið fljótt og halla fór að kveldi. Krökkunum var smalað út, þrátt fyrir mótbárur margra, enda var fullorðna fólkið orðið ansi framlágt. Nú var það sturta, kvöldmatur og snemma í rúmið. Nokkuð öruggt er að einhverjir hafi sofnað áður en höfuðið snerti koddann.

Comments

comments