Gleðilegan þjóðhátíðardag!

Í gærmorgun mættum við í Esajas kirkju á sameiginlega æfingu með danska kórnum. Þar var meðal annars farið yfir lögin sem á að syngja í messunni sem er núna á eftir. Að æfingu lokinni var hópnum smalaði í strætó og svo í metró (neðanjarðarlest) til að drífa sig á Íslendingahátíðina. Þar sungu krakkarnir með glæsibrag og mörg þeirra hlupu kvennahlaup og fengu verðlaunapening. Svo var hægt að liggja smávegis í sólbaði á grasinu, milli þess sem hægt var að kaupa íslenskar pulsur og íslenskt nammi í sölubásunum.

Því miður gátum við ekki verið mjög lengi á hátíðinni því við þurftum að koma okkur heim á hótel til að skola aðeins af okkur og skipta um föt. Við áttum nefnilega pöntuð borð á Jensens Bøfhus kl. 18. Þegar þangað var komið máttu krakkarnir velja sér rétti og vakti það mikla lukku. Eftir matinn var pakkað niður og farið að sofa.

Við vöknuðum núna áðan kl. 7 og krakkarnir eru að borða morgunmat í þessum skrifuðum orðum. Við förum bráðum að leggja af stað til að syngja í messunni og fáum að geyma farangurinn okkar á hótelinu. Við stefnum á smá skoðunarferð eftir hádegið áður en við þurfum að sækja farangurinn og leggja af stað út á flugvöll. Áætluð lending er kl. 20.55 að íslenskum tíma – flugnúmerið er FI 213.

Sjáumst!

Comments

comments