Dagurinn í dag hófst á skoðunarferð í rútu  um borgina undir leiðsögn Ferenc. Hann sagði okkur að fram hefði komið viðvörun frá ungverska landlæknisembættinu um yfirvofandi hitabylgju. Allir þyrftu að passa að drekka mikið vatn og helst vera með höfuðfat til varnar
sólinni.

Helga kórstjóri heyrðist í kjölfarið hvetja til drykkju í rútunni ;)

Eftir smá rúnt um borgina var farið upp að Buda-kastala og Matthíasarkirkju. Krakkarnir nýttu stoppið til að kaupa sér sólhatta, hlaupa upp tröppur og taka myndir af útsýninu.

Aftur var farið í rútuna og nú lá leiðin að kastalahæð (Citadella). Á göngunni síðasta spölinn frá bílastæðinu varð til ný bylting: “Free the bra”. Allmargar stúlkur fóru úr bolunum sínum og sprönguðu um á brjóstahaldaranum. Hitinn var svo mikill!

(Pilturinn í hópnum var löngu kominn úr að ofan.)

Eftir að hafa skoðað útsýnið af kastalahæðinni og giskað rétt á heildarlengd Dónár (2800 km) var haldið aftur í rútuna.

Seinnipart dagsins eyddum við í dýragarðinum. Fyrst að skoða dýrin: Þarna eru skjaldbökur og kóaladýr og anakondur og bjöllur og páfuglar og kengúrur og hrægammar og gárar og mauraætur og fílar og gíraffar og tígrisdýr og birnir og refir og … og… já, við höfðum svo sannarlega ekki tíma til að skoða öll dýrin. Við þurftum nefnilega líka að fara í skemmtigarðinn sem er samliggjandi. Þar voru nokkur dýr líka (t.d. hrútar og alpacadýr) en líka tæki eins og eldgamall rússíbani, hringekjurólur og fleira skemmtilegt.

Toppurinn var samt klifur-þrautabraut. Um það bil helmingur hópsins, þar á meðal sérlega lofthræddar stúlkur, skelltu sér í hjálm og klifurbelti með karabínum og fetuðu yfir víra sem lágu marga metra fyrir ofan jörðu. Að sjálfsögðu var þetta allt undir leiðsögn fagfólks. Ég er nokkuð viss um að lofthræðslan hafi læknast hjá mörgum!

Að lokum var komið að heimleið. Sumir fóru beint á hótelið og svo í kvöldmat, en flestir vildu fara aftur í mollið – það var nefnilega opið til 21 og sumar búðir opnar til 22. Það gæti orðið vöruskortur í H&M og New Yorker á morgun…

Comments

comments