Dagurinn í dag hófst á örlítilli verslunarferð. Við fórum í eina H&M búð á Strikinu og þar heyrðust setningar eins og “Hvað er þessi búð eiginlega stór?”, “Fáum við ekki meiri tíma hérna?” og þar fram eftir götunum. Svo gleyptum við í okkur hádegismat, fórum upp á hótel, róuðum okkur aðeins niður og gerðum okkur klár fyrir sameiginlega tónleika með barnakór Esajas kirkju.

Hópurinn fór svo í strætó til Esajas kirkju, þar sem kórarnir hituðu upp og æfðu sig fyrir tónleikana. Hins vegar voru þrír fararstjórar skildir eftir, því þeirra hlutverk var að fara í innkaupaleiðangur. Þó leiðin í næstu kjörbúð sé ekki löng þá er það ekkert grín að bera morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu fyrir rúmlega fjörutíu manns. Þess vegna var gripið til þess ráðs að tæma ferðatöskur og bakpoka. Að innkaupunum loknum var síðan þrammað til baka með fullar ferðatöskur af safafernum, jógúrtfernum og áleggsbréfum. Gulrótapokar og epli voru sett í bakpoka og svo var brauðum troðið í innkaupapoka áður en allt var dregið heim og dreift á ísskápana sem við höfum til umráða. Fararstjórarnir þrír þurftu svo að hlaupa í strætó til að ná að mæta á tónleikana – og það hafðist upp á mínútu!

Tónleikarnir tókust alveg rosalega vel og nú eru íslensku krakkarnir okkar líka búnir að slá í gegn hjá Dönunum :) Sigga Eyþórs sem stjórnar barnakór Esajas kirkju er alveg yndisleg og vill allt fyrir okkur gera. Að tónleikum loknum var öllum, líka dönsku foreldrunum, boðið upp á súpu og brauð (og hvítvínsglas fyrir fullorðna fólkið).

Svo lá leiðin heim á hótel. Í strætónum á leiðinni rákumst við á þrjár ungar íslenskar konur, sem vildu að sjálfsögðu fá að heyra í kórnum. Það var ekki að spyrja að því, auðvitað sungu krakkarnir bara fyrir þær! Það verður að segjast að það er bara ágætur hljómburður í dönskum strætisvögnum og samfarþegar okkar fengu að heyra Söng Dimmalimm á leið sinni um borgina.

Í kvöld stóðum við svo í stórræðum, en það kom í ljós að nokkrir vildu breyta herbergjaskipaninni. Við fengum leyfi til að flytja rúm á milli herbergja og það var mikið fjör. Nú eru allir hamingjusamir og sáttir, vinir eru sameinaðir og Anna píanóleikari fékk sérherbergi til að æfa sig á píanóið – enda kom statífið og stóllinn til okkar í morgun.

Kveðjur til allra heima!
Ásdís HUld

Comments

comments