Í morgun eftir morgunmat var ákveðið að skipta krökkunum upp í litla hópa og svo var farið undir stjórn fararstjóranna í verslunarleiðangur, því einn og hálfur tími í einni búð í gær var alls ekki nóg fyrir krakkana. Allir fengu heimatilbúið nesti til að grípa í milli búðarferða. Þau elstu fengu næstum lausan tauminn á Strikinu, eða allavega var lengt svolítið í tauminum, en þau yngstu þurftu auðvitað meira utanumhald.

Sjálf fylgdi ég yngsta hópnum, við tókum strætó að efri hluta Købmagergade og röltum þaðan niður að Strikinu með viðkomu í nokkrum búðum. Sumar keyptu sér eitthvað smávegis en aðrar höfðu bara gaman af að máta og spekúlera.
Á miðri leið sáum við Sívalaturninn og að sjálfsögðu vildu stúlkurnar kíkja þangað upp. Það varð úr að við borðuðum nestið okkar á “Kossabekknum” sem er efst inni í turninum.  Á leiðinni niður aftur sáum við eldgamalt klósett sem væri nú ekki kræsilegt fyrir nútímafólk: bara hlemmur á stalli. Þá kom í ljós að þarna rétt hjá var inngangur úr turninum yfir í sal þar sem háskólabókasafnið var í gamla daga. Upphófust þá nokkrar vangaveltur um það hvort þetta væri ekki bara klósettið sem Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og jafnvel sjálfur H.C. Andersen hefðu þurft að bregða sér á meðan þeir voru að stúdera á bókasafninu :)

Á Strikinu hittust svo flestir hóparnir aftur og urðu samferða upp á hótel. Þar tók við smá hressing áður en við drifum okkur öll af stað í Jónshús. Við fengum alveg frábærar móttökur í  Jónshúsi og tónleikarnir þar tókust líka sérlega vel – kórinn var klappaður upp tvisvar og einn gesturinn hafði keyrt í klukkutíma til að hlusta á kórinn.
Að tónleikum loknum voru pantaðar pizzur fyrir 50 manns því nokkrir af dönsku kórfélögunum voru á staðnum ásamt kórstjóranum sínum, henni Siggu. Þetta var allt voða heimilislegt og yndislegt hjá okkur. Íslensku og dönsku krakkarnir ná ágætlega saman og það tókst með herkjum að slíta hópana í sundur til að fara heim :)

Það voru þreyttir en glaðir krakkar sem komu upp á hótel í kvöld. Á morgun ætlum við að hafa rólega og frjálsa stund fram til hádegis og dagsskipunin er að sofa aðeins út. Eftir hádegismat förum við svo loksins í Tívolí. Það er nú ekki lítið sem krakkarnir hafa hlakkað til Tívolíferðarinnar, enda sjá þau Tívolíið á hverjum degi þegar við löbbum fram hjá eða keyrum í strætó nálægt Rådhuspladsen.

Bestu kveðjur,
Ásdís Huld

Comments

comments