Unglingakórinn hélt í söng og skemmtiferð til Eyja helgina 19.-21.apríl.

Með í för var stúlknakór Seljakirkju ásamt flottum foreldrum úr báðum kórum.
Á leið til Landeyja kíktum við á Seljalandsfoss sem skartaði sínu fagursta þó að rigningin léti á sér kræla.
Næst tók stutt ferð með Herjólfi yfir til Vestmannaeyja þar sem rúta beið okkar. Þegar við höfðum komið við í safnaðarheimilinu við Landakirkju og sungið þar yfir nokkur lög var flottasta sundlaug landsins heimsótt. þar nutu margir sér við að renna sér niður rennibrautirnar eða létu sér nægja að horfa á aðra renna sér niður.

Á Laugardagsmorgun hófu kórarnir daginn á æfingu og eftir ljúffengt pasta í hádeginu sem foreldrarnir göldruðu fram á einni hellu fyrir 44 manna hóp fórum við í mjög skemmtilega útsýnisferð um Eyjuna.
Eftir það skelltu margir sér í sundlaugina til að æfa rennibrautartæknina enn betur. Næst tók undirbúningur kvöldsins við, kórdressin dregin fram og elstu stúlkurnar nutu góðs af kunnáttu Evu (mömmu) sem aðstoðaði þær við förðunartæknina.
900 Grillhús klikkaði ekki á veitingunum sem við snæddum áður en við héldum tónleika í safnaðarheimili Landakirkju með Barnakór sem þar er starfandi ásamt stúlknakór Seljakirkju.
Kórarnir stóðu sig með mikilli prýði og eftir tónleikana héldu þeir saman fína kvöldvöku með söng og leikjum.

Á sunnudagsmorgni var Áróra afmælisbarn vakin með söng kórsins og köku kl. 6:10 stefnan var sett á Herjólf kl. 8:00 sem sigla átti í Þorlákshöfn vegna mikilla ölduhæðar. Óvænt frétt barst síðan kl. 7:10 þess efnis að Herjólfur sigldi til Landeyjahafnar.
Vel gekk að ganga frá öllu og koma farangri í rútu þrátt fyrir smá þreytu í mannskapnum. Þegar við komum að Seljakirkju stóð yfir Vorhátíð í kirkjunni svo við slógum til og sungum tvö lög fyrir kirkjugesti. Heimkoma að Hafnarfjarðarkirkju var um kl. 12:10

Ferðin gekk í alla staði mjög vel og voru allir sér til fyrirmyndar.

Þakka þeim foreldrum sem komu með í ferðina kærlega fyrir dugnað og skemmtilega samveru og einnig þeim sem komu með veitingar fyrir ferðina. Það kom sér svo sannarlega vel í ferðinni að geta gripið í eitthvað gott handa svöngum ferðalöngum.

Helga Loftsd.

Comments

comments