Barna- og unglingakór

Öll börn með áhuga á söng og tónlist eru velkomin í kórana. Kórarnir skiptast í Barnakór fyrir börn í 1.-6. bekk og Unglingakór fyrir ungmenni í 7. – 10. bekk.   Kórastarfið er í raun tónlistarnám, þar sem raddir barnanna eru þjálfaðar jafnt og þétt í gegnum leik og söng. Einblínt er á styrkleika hvers og eins til þess að allir fái sín notið. Í upphafi starfsársins og í janúar er lögð fram dagskrá og birt á korar.is og á facebookhóp kórsins. Undanfarin ár hafa að meðaltali 50-80 börn og unglingar tekið þátt í kórastarfinu og ár hvert hafa allmörg ungmenni útskrifast úr kórnum eftir þátttöku frá unga aldri. Með umsjón kóranna fara Helga Loftsdóttir og Jessica Margrét Bunch.

Skráning fer fram á heimasíðu kórsins, korar.is.

Barnakórinn æfir í Hafnarfjarðarkirkju einu sinni í viku á mánudögum kl. 17:00-17:50.
Unglingakórinn æfir í Hafnarfjarðarkirkju tvisvar í viku á mánudögum kl. 18-19:15 og á fimmtudögum kl. 17:30-18:45.
Gera má ráð fyrir tveimur til fjórum aukaæfingum á önninni.

Eftir að kórgjöld hafa verið greidd fá kórfélagar kórmöppu fyrir texta og nótnablöð. Til að koma í veg fyrir að hún gleymist heima verður hún geymd niðrí kirkju. Textar og nótur þeirra laga sem kórstjóri telur gott að fara yfir heima verða settar inn á facebookhóp kóranna.

Mjög mikilvægt er að mæta á allar æfingar og á réttum tíma, bæði til þess að missa ekki af neinu og ekki síður til þess að trufla ekki æfinguna fyrir hinum. Fyrir æfingar er gott að vera vel nærður, fara á salerni, taka húfur af kolli og fleygja tyggjói. Þannig spörum við tíma sem annars fer í þetta á æfingatíma.

Þegar kórinn kemur fram er ætlast til að kórfélagar séu snyrtilegir til fara. Ekki eru sérstakir kórbúningar en kórfélagar klæðast svörtum og/eða hvítum fötum að eigin vali. Klæðnaðurinn er stundum brotinn upp með t.d. rauðu fyrir jólin og með sumarlitum á vorin.

Uppákomur/mætingar

Eins og fram hefur komið kemur kórinn fram við hin ýmsu tækifæri innan kirkjunnar jafnt innan hennar sem utan.
Ætlast er til að kórfélagar mæti á æfingar og þegar kórinn kemur fram nema um veikindi sé að ræða því kórastarf byggist á samvinnu þeirra sem það stunda.

Dagskrá kóranna er auglýst á korar.is og facebookhóp kórsins til þess að hægt sé að skipuleggja sig í tíma. Dagskrá og erfiðleikastig laga er valið út frá þeim hóp kórfélaga sem eru skráðir og því á stjórnandinn að geta gert ráð fyrir að þeir sem stundi æfingar mæti einnig þegar kórinn komi fram. Margir innan kórsins eru með mikinn metnað í að gera sitt allra besta og fórna ýmsu fyrir það að byggja upp góðan kór. Því er leiðinlegt fyrir þá sem mæta og standa sig alltaf vel ef dræm mæting er á viðburði sem mikið hefur verið æft fyrir. Þess vegna er gott að hafa skýrar reglur um mætingar til að vinnan og ábyrgðin leggist jafnt á alla, en ekki er síður mikilvægt fyrir alla kórfélaga að taka þátt í gleðinni sem verður til við að uppskera eftir mikla vinnu.

Uppbrot á kórastarfinu

Á hverju ári eru nokkur uppbrot á kórastarfinu. Árlega fer unglingakórinn í tveggja daga æfingabúðir sem eru mikilvægur hluti þess að hrista hópinn saman, bæði kórfélaga og foreldra sem og að æfa að kappi fyrir jólatörnina. Önnur uppbrot eru t.d. náttfatapartý, kóraheimsóknir og ofl.
Að vori fara kórarnir annaðhvort í óvissuferð eða vorferð. Á nokkurra ára fresti hefur unglingakórinn farið í söngferðalag erlendis t.d. til Ungverjalands, Noregs og Danmerkur.

Hlutverk kórsins

Hlutverk kórsins er að koma fram í kirkjunni við ýmis tækifæri og þá helst í fjölskylduguðþjónustum þar sem kórinn leiðir sönginn. Unglingakórinn tekur árlega þátt í jólavöku við kertaljós, Syngjandi jólum í Hafnarborg og kóramóti hafnfirskra barnakóra í Víðistaðakirkju.  Kórinn hefur sungið með á jólatónleikum Frostrósa, Jólin alls staðar og Guðrún Árnýju söngkonu.

Undanfarin ár hefur unglingakórinn tekið þátt í kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju ásamt öðrum tónlistarmönnum. Ár hvert heldur kórinn sjálfstæða Jóla- og Vortónleika þar sem afrakstur starfsins eru gerð skil. Kórinn hefur haldið tónleika með nokkrum barna- og unglingakórum og tekið á móti innlendum og erlendum gestakórum.

Hlutverk foreldra

Áhersla er lögð á gott samstarf við foreldra í kórastarfinu enda hlutverk þeirra mikilvægt og margþætt. Þeirra er að sjá til þess að börnin mæti á æfingar og aðra auglýsta atburði, að fylgjast með dagskrá kóranna og gera ráð fyrir æfingum og atburðum þeirra inn í dagskrá fjölskyldunnar. Mikilvægt er að tilkynna veikindi eða önnur nauðsynleg forföll með sms eða lokuðum skilaboðum á facebook (taka þarf fram ástæðu forfalla í skilaboðum). Þá er einnig treyst á aðstoð foreldra t.d. í kringum æfingabúðir og/eða vorferða. Það hefur margoft sýnt sig að stuðningur foreldra með því að koma á tónleika, hvetja og styðja skiptir sköpum fyrir kórfélagana og kórastarfið. Foreldrar eru hvattir til þess að hafa samband við kórstjóra ef eitthvað er, með facebook skilaboðum eða í síma 695-9584.

Rekstur kórsins/kórgjald

Hafnarfjarðarkirkja sér um allan rekstur kórsins, þ.e.a.s. borgar laun kórstjóra og undirleikara og sér kórnum fyrir aðstöðu. Einnig skaffar hún nótur, ljósritunaraðstöðu ofl. Kórfélagar í Barna-og unglingakór borga eitt kórgjald yfir veturinn sem er fyrir kostnaði af þeim uppbrotum sem eru  í tengslum við kórinn t.d. þegar við höldum pizzuveislu, æfingadag/búðir, smá hressingu á æfingu og óvissuferð/vorferð.

Gert er ráð fyrir að greiðslur berist við innritun inn á reikning kórsins.
Þátttaka í Barnakórnum er 5000 kr. og Unglingakórnum 10.000 kr.
Rnr: 545-26-9076
Kt: 590169-7069
Mikilvægt er að setja nafn barns í skýringu á millifærsluna.

Korar.is og FaceBook síðan okkar

Á heimasíðu kórsins korar.is eru allar helstu upplýsingar um starfsemi hans.
Einnig er kórinn með opna facebooksíðu þar sem allir geta fylgst með hvað kórinn hefur fyrir stafni.
Finna má síðuna undir nafninu: Barna- og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju.

Mikilvægustu skilaboðin koma í gegnum lokaða facebookhópa, einn er fyrir barnakórinn og annar fyrir unglingakórinn. Þar getur kórstjóri, kórfélagar og foreldrar sett inn upplýsingar, videóupptökur og fleira er varðar kórastarfið. Foreldrar eru hvattir til að óska eftir inngöngu í hópinn og fylgjast sérstaklega vel með þar.

Hópana er hægt að finna undir nöfnunum:
Barnakór Hafnarfjarðarkirkju veturinn 2018-2019
Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju 2018-2019